Súkkulaði Kleinuhringir

Innihald

Kleinuhringir

14 g þurrger
60 ml volgt vatn
360 ml volg mjólk
70 g sykur
30 g púðursykur
2 stk egg
3 g salt
80 g smjörlíki
700 g hveiti

Súkkulaði Ganache

200 g suðusúkkulaði frá Freyju
30 ml mjólk 
270 g rjómi

Aðferð

  1. Byrjið á að búa til súkkulaði ganache. Hitið rjómann og mjólkina upp að suðu. Hellið rjómanum og mjólkinni yfir súkkulaðið og látið standa þar til súkkulaðið fer að bráðna. Hrærið súkkulaðið saman við rjómann með sleif þar til allt er komið vel saman. Setjið til hliðar á meðan þið gerið kleinuhringina.
  2. Byrjið á á velgja mjólkina og vatnið, bætið svo þurrgerinu saman við og leysið þurrgerið upp í vatninu og mjólkinni.
  3. Setjið öll hráefnin saman í hrærivélaskál og hrærið saman þar til deigið er komið vel saman, er orðið silkislétt og fer að losna frá hliðum skálarinnar.
  4. Leyfið deiginu nú að hefast þar til það hefur tvöfaldast í stærð.
  5. Fletjið deigið út þar til það er um 1cm þykkt og skerið út kleinuhringi. Haldið áfram að setja deigið saman og fletja það út þar til þið eruð búin að skera út eins marga kleinuhringi og mögulega hægt er úr deiginu.
  6. Hitið olíuna upp í 170-180C. Þegar olían er tilbúin er kleinuhringjunum hvolft út í og þeir steiktir á báðum hliðum í 1-2 mínútur eða þar til þeir eru orðnir gullinbrúnir.
  7. Steikið alla kleinuhringina og leyfið þeim að kólna léttilega. 
  8. Dýfið þeim næst í súkkulaði ganache og passið að láta súkkulaðið þekja kleinuhringinn vel, það er besti parturinn.
  9. Næst er bara að njóta – verði ykkur að góðu.